Selfoss vann öruggan sigur á Fjölni í úrslitakeppni 2. deildar kvenna í knattspyrnu á Fjölnisvelli í Grafarvogi í kvöld. Deildarmeistaratitillinn er í seilingarfjarlægð hjá Selfyssingum.
Guðmunda Brynja Óladóttir gerði nánast út um leikinn á fyrstu tíu mínútunum en hún skoraði tvívegis og var fyrra markið hennar 200. í öllum mótum á vegum KSÍ.
Fjölnir minnkaði muninn í 1-2 fyrir hálfleik en Selfoss hafði góð tök á leiknum í seinni hálfleik og Sara Rún Auðunsdóttir og Björgey Njála Andreudóttir bættu við mörkum og tryggðu Selfossi 1-4 sigur.
Selfoss er á toppi deildarinnar með 43 stig og þar á eftir kemur ÍH með 35 stig og leik til góða. Selfyssingar þurfa einn sigur í viðbót til þess að tryggja sér deildarmeistaratitilinn.

