Guðmunda áfram formaður frjálsíþróttaráðs

Guðmunda Ólafsdóttir (til hægri) við dómarastörf á unglingalandsmótinu í Þorlákshöfn. Þórhildur Arnarsdóttir, Umf. Hrun, stekkur. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Aðalfundur Frjálsíþróttaráðs HSK var haldinn í Selinu 26. mars síðastliðinn og mættu fulltrúar frá sex aðilarfélögum ráðsins á fundinn.

Skýrsla stjórnar var lesin af Guðmundu Ólafsdótur formanni og Engilbert Olgeirsson fór yfir reikninga ráðsins. Samkvæmt þeim var hagnaður um 2.674 kr. en markmiðið var að hagnaður yrði eins nálægt núlli og hægt yrði.

Fjárhagsáætlun ráðsins var samþykkt og þá var samþykkt tillaga um skiptingu hagnaðar á MÍ 15-22 ára sem fram fer á Selfossvelli 15.-16. júní. 5% fer til frjálsíþróttaráðs og 95% til þeirra félaga sem útvega starfsmenn á mótið og verður hagnaðinum deilt út miðað við vinnuframlag.

Á fundinum var auk þess rætt um mótahald sumarsins á vegum frjálsíþróttaráðs HSK en Stefnt er að því að halda héraðsleika og aldursflokkamót fyrir 14 ára og yngri í Þorlákshöfn um sjómannadagshelgina í byrjun júní.

Guðmunda Ólafsdóttir formaður gaf kost á sér áfram og var kosin til tveggja ára. Anna Pálsdóttir, Umf. Selfoss, kemur ný inn í stjórn í stað Bryndísar Evu Óskarsdóttur, Umf. Þjótanda, sem gaf ekki kost á sér áfram. Í fyrra voru Helgi S. Haraldsson, Umf. Selfoss, Tinna Björnsdóttir, Umf. Selfoss og Sigurður K. Guðbjörnsson, Umf. Heklu, kosin til tveggja ára.

Fyrri greinKryddjurtir í gluggann
Næsta greinGjáin rannsökuð áfram í dag