Guðjón Gísli fékk framfarabikarinn eftir Fríska Sólheimahlaupið

Hópurinn áður en lagt var af stað við Minni Borg.

Hið árlega Fríska Sólheimahlaup fór fram í blíðskaparveðri, síðastliðinn sunnudag. Félagar úr hlaupahópnum Frískum Flóamönnum á Selfossi hittu íbúa á Sólheimum við Minni Borg í Grímsnesi og þaðan var hlaupið, hjólað eða gengið að Sólheimum.

Þegar allir þátttakendur höfðu skilað sér í mark var athöfn á Grænu könnunni þar sem framfarabikar Frískra Flóamanna var afhentur en hann hlýtur sá íbúi á Sólheimum sem hefur sýnt mestar framfarir, góða ástundun í íþróttum eða almennri hreyfingu og hefur verið hvetjandi og fyrirmynd fyrir aðra íbúa. Sá sem hlaut bikarinn að þessu sinni er Guðjón Gísli Kristinson og er hann mjög vel að honum kominn.

Eftir athöfnina var boðið upp á hressingu sem var kærkomin fyrir þreytta og þyrsta þátttakendur.

„Við þökkum vinum okkar á Sólheimum fyrir samveruna og góðar móttökur á þessum fallega haustdegi í fögru umhverfi,“ segir í tilkynningu frá Frískum Flóamönnum.

Sigmundur þjálfari, afhendir Guðjóni Gísla framfarabikar Frískra Flóamanna.
Fyrri greinBleikt boð í HÚM stúdíó
Næsta greinVegleg sviðaveisla hrútavina