Guðjón Bjarni fékk góða kosningu

Ný stjórn KSÍ. Guðjón Bjarni er lengst til hægri í fremstu röð. Ljósmynd/sunnlenska.is

Guðjón Bjarni Hálfdánarson, Knattspyrnufélagi Árborgar, var kosinn í varastjórn Knattspyrnusambands Íslands á ársþingi sambandsins í Reykjavík í dag.

Fjórir voru í framboði til varastjórnar en kosið var um þrjú sæti. Guðjón Bjarni fékk góða kosningu, 108 atkvæði af þeim 147 sem í boði voru. Þóroddur Hjaltalín frá Akureyri fékk 188 atkvæði, Jóhann Torfason frá Ísafirði 103 atkvæði. Hilmar Þór Norðfjörð frá Reykjavík fékk 31 atkvæði og náði ekki sæti í stjórn. Eitt atkvæði var ógilt.

„Ég er mjög þakklátur fyrir þann stuðning góða sem ég fékk. Ég er spenntur fyrir komandi verkefnum fyrir KSÍ og félögin í landinu og hlakka til að vinna að framgangi íslenskrar knattspyrnu,“ sagði Guðjón Bjarni í samtali við sunnlenska.is þegar úrslitin voru ljós.

Tómas Þóroddsson var sjálfkjörinn landshlutafulltrúi Suðurlands í stjórn KSÍ en hann hefur gegnt því embætti í nokkur undanfarin ár.

Fyrir utan varastjórnarkosninguna var líklega mest spenna um formannskjörið hjá sambandinu. Þar sigraði Guðni Bergsson örugglega með 81% atkvæða. Hann fékk 119 atkvæði en Geir Þorsteinsson 26 atkvæði.

Fyrri greinHandtekinn vegna líkamsárásar á Selfossi
Næsta greinFjöldi Sunnlendinga í nýskipaðri Íþróttanefnd ríkisins