Guðbjörg sæmd silfurmerki HSK

Helgi S. Haraldsson varaformaður HSK afhenti Guðbjörgu silfurmerki HSK á aðalfundi frjálsíþróttaráðs HSK. Ljósmynd/HSK

Á stjórnarfundi Héraðssambandsins Skarphéðins í gær var ákveðið að veita Guðbjörgu Viðarsdóttir silfurmerki HSK og veitti hún merkinu viðtöku á aðalfundi frjálsíþróttaráðs HSK, sem fór fram í gærkvöldi.

Guðbjörg á skráðan margan árangur í afrekaskrá Frjálsíþróttasambands Íslands, sá fyrsti skráður 31. júlí 1983, þá 12 ára á móti í Reykjavík og kastaði kúlu 7,96 m.  Sá síðasti sem skráður er í afrekaskrána, er frá 15. apríl 2017, kúluvarp innanhúss 9,40 m á Páskamóti Hrunamanna. Köstin hafa alltaf verið hennar helstu greinar, kúluvarp, sleggjukast og kringlukast.  Hún æfði og keppti í mörg ár og var mikilvægur hlekkur í liði HSK á þeim árum. 

Guðbjörg hóf feril sinn í Umf. Dagsbrún í Landeyjum þar sem hún ólst upp. Eftir að keppni lauk hefur hún sinnt leiðtogahlutverkinu í því að þjálfa börn og unglinga í frjálsum íþróttum og tekist vel til. Hvar sem hún fer er starfið rifið upp og hvergi slegið slöku við. Í dag er hún þjálfari hjá Umf. Hrunamanna og má með sanni segja að þar sé hún lykilmanneskja í að halda frjálsum íþróttum á lofti.

Af öðrum fréttum á aðalfundi frjálsíþróttaráðs má nefna að engar breytingar urðu á stjórn ráðsins, en Guðmunda Ólafsdóttir Umf. Þjótanda, sem hefur verið formaður ráðsins undanfarin ár og Eyrún María Guðmundsdóttir úr Íþrf. Dímon voru endurkjörnar til tveggja ára. Árið 2020 voru Helgi S. Haraldsson Umf. Selfoss, Tinna Björnsdóttir Umf. Selfoss og Sigurður K. Guðbjörnsson Umf. Heklu kosin til tveggja ára.

Fyrri greinUppskerudagur Startup Orkídeu
Næsta greinStyrmir Snær framlengir í Þorlákshöfn