Guðmundur til Nordsjælland

Knattspyrnumaðurinn Guðmundur Þórarinsson frá Selfossi er genginn til liðs við danska úrvalsdeildarliðið Nordsjælland en hann kemur til liðsins frá Sarpsborg í Noregi.

„Mjög ánægður með að hafa skrifað undir þriggja og hálfs árs samning hjá FC Nordsjælland,“ skrifaði Guðmundur á Instagram síðu sína í dag.

Guðmundur er 22 ára sóknarmiðjumaður en hann lék lykilhlutverk með U21-landsliðinu í síðustu undankeppni og var í A-landsliðshópnum gegn Kanada á dögunum.

Hann er uppalinn hjá Selfossi en lék með ÍBV í Pepsi-deildinni áður en hann fór í atvinnumennskuna til Noregs.

Guðmundur verður ekki eini Íslendingurinn í herbúðum Nordsjælland en þjálfari liðsins er Ólafur Kristjánsson og meðal leikmanna liðsins eru markvörðurinn Rúnar Alex Rúnarsson, bakvörðurinn Adam Örn Arnarson og sóknarmaðurinn Guðjón Baldvinsson.

Hér að neðan má sjá viðtal við Guðmund af heimasíðu Nordsjælland.

Fyrri greinBúist við skafbyl á Hellisheiði
Næsta greinBúið að opna Hellisheiði og Þrengsli