Guðmundur Kr. og Hrafnhildur sæmd heiðurskrossi ÍSÍ

Guðmundur Kr. Jónsson og Hrafnhildur Guðmundsdóttir fengu afhentan heiðurskross ÍSÍ í sérstöku afmælishófi sem haldið var í Ráðhúsi Reykjavíkur sl. laugardag í tilefni af 100 ára afmæli Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands.

Guðmundur hóf ungur að iðka frjálsar íþróttir á Selfossi og var afburða spretthlaupari og stökkvari. Hann vann mörg glæst afrek bæði á héraðs- og landsvísu og var til að mynda stigahæsti keppandinn í karlaflokki á Landsmóti UMFÍ á Laugarvatni árið 1965, en þar sigraði hann bæði í 100 metra hlaupi og þrístökki. Hann varð snemma öflugur félagsmálamaður, tók virkan þátt í starfi heima í héraði, í sínu félagi Umf. Selfoss. Guðmundur var m.a. formaður frjálsíþróttadeildar Umf. Selfoss árin 1968-1979 og síðar framkvæmdastjóri félagsins, ásamt því að vera vallarstjóri á Selfossvelli.

Guðmundur var kjörinn formaður HSK árið 1981 og hélt um stjórnartaumana í átta ár með miklum myndarskap. Hann tók þá sæti í varastjórn ÍSÍ í tvö ár, tímabilið 1992-1994. Guðmundur Kristinn tekur enn virkan þátt í starfi íþróttahreyfingarinnar með ýmsum hætti. Á síðasta ári átti hann m.a. sæti í 75 ára afmælisnefnd Umf. Selfoss.

Hrafnhildur er mikil afrekskona í sundi. Hún varð 35-faldur Íslandsmeistari á árunum 1957-1972 og setti á þeim tíma alls 75 Íslandsmet í 22 sundgreinum 5 sundaðferða og eru þá boðsundsmetin ótalin. Hún var langfremsta sundkona landsins á árunum 1962-66 og átti þá öll Íslandsmet kvenna, 18 að tölu, nema í 1500 m. Hún varð Reykjavíkurmeistari 20 sinnum en hún keppti fyrir ÍR lengst af. Hrafnhildur keppti á Ólympíuleikunum 1964 í Tókýó og 1968 í Mexíkó.

Þegar íþróttaferlinum lauk hóf Hrafnhildur að þjálfa sund, lengst af í Þorlákshöfn. Hún þjálfaði meðal annars börn sín en fjögur þeirra fetuðu í fótspor móður sinnar og voru meðal fremstu sundmanna landsins. Hún endaði farsælan þjálfaraferil sinn árið 2010 hjá sunddeild Umf. Selfoss. Hrafnhildur átti sæti í Ólympíunefnd Íslands og hefur auk þess setið í ýmsum í nefndum og ráðum á vegum Sundssambands Íslands.

Fyrri greinÆtla að ræða við Hvergerðinga
Næsta greinVel heppnaður bóndagur