Guðmunda skoraði aftur

Guðmunda Brynja Óladóttir skoraði annan leikinn í röð fyrir U17 ára landslið Íslands í knattspyrnu sem lagði Pólland í dag, 2-0, og tryggði sér sæti í úrslitakeppni EM í sumar.

Eftir markalausan fyrri hálfleik kom Guðmunda Íslandi yfir á 56. mínútu og Telma Þrastardóttir bætti við öðru marki á 69. mínútu. Þar við sat og íslenska liðið fagnaði vel í leikslok og ekki síður þegar fréttir bárust af því að England hafði unnið Svía. Þar með var ljóst að efsta sæti riðilsins var Íslands og sæti í úrslitakeppninni tryggt.

Líkt og í leiknum gegn Englendingum hóf Guðmunda leikinn á varamannabekknum og var skipt inná í hálfleik. Guðrún Arnardóttir sat á bekknum allan tímann.

Þrátt fyrir að ein umferð sé eftir í milliriðlinum þá hafa stelpurnar tryggt sér efsta sætið í riðlinum með sex stig. Pólland og England hafa þrjú stig og geta náð íslenska liðinu að stigum en sigur Íslands á þessum þjóðum tryggir þeim efsta sætið á innbyrðis viðureignum.

Úrslitakeppnin fer fram í Nyon í Sviss, dagana 28.-31. júlí en aðeins eru fjórar þjóðir sem komast hana. Ísland mun leika í undanúrslitum gegn Spánverjum.

Þetta er frábær árangur hjá hópnum en liðið á enn einn leik eftir í riðlinum, leikið verður gegn Svíum fimmtudaginn 14. apríl.

Fyrri greinVarð undir snjóhengju
Næsta greinLægri símkostnaður við kaup á farsímum