Guðmunda og Ragnar íþróttafólk ársins

Knattspyrnukonan Guðmunda Brynja Óladóttir og Ragnar Jóhannsson handknattleiksmaður, bæði úr Umf. Selfoss, voru kosin íþróttakona og íþróttakarl Árborgar árið 2010.

Kjörinu var lýst á uppskeruhátíð Íþrótta- og tómstundanefndar Árborgar í kvöld.

Guðmunda er 16 ára gömul og ein efnilegasta knattspyrnukona landsins. Hún var í lykilhlutverki í meistaraflokksliði Selfoss í 1. deild kvenna og skoraði 13 mörk í 13 deildarleikjum í sumar. Auk þess lék hún með jafnöldrum sínum í liði 3. flokks sem varð Íslandsmeistari í haust. Þá raðaði Guðmunda inn mörkum fyrir U17 ára landslið Íslands og lék auk þess með U19 ára landsliðinu.

Ragnar er burðarás í meistaraflokksliði Selfoss í handbolta sem vann 1. deild karla með glæsibrag í vor. Ragnar var langmarkahæsti leikmaður deildarinnar og var á lokahófi HSÍ valinn besti sóknarmaðurinn og besti leikmaður deildarinnar. Ragnar er markahæsti leikmaður N1-deildar karla sem stendur og er algjör lykilmaður í leik Selfossliðsins.

Kosningin var æsispennandi hjá konunum en þrjú stig skildu að Guðmundu og fimleikakonuna Örnu Hjartardóttur sem varð önnur. Guðmunda fékk 177 stig en Arna 174. Þriðja varð frjálsíþróttakonan Fjóla Signý Hannesdóttir með 111 stig.

Hjá körlunum hafði Ragnar mikla yfirburði með 194 stig. Jóhann Ólafur Sigurðsson, knattspyrnumarkvörður, var annar með 94 stig og Daníel Jens Pétursson, taekwondomaður, hlaut 84 stig.

Auk krýningar íþróttakarls og íþróttakonu Árborgar voru íþróttamönnum, liðum og félögum afhentir styrkir fyrir góðan árangur bæði frá sveitarfélaginu og úr Afreks-og styrktarsjóði Árborgar og íþróttafélaganna.

Umf. Eyrarbakka fékk sérstök hvatningarverðlaun og júdódeild Umf. Selfoss og Hestamannafélagið Sleipnir fengu viðurkenningu fyrir að vera orðin fyrirmyndardeild og fyrirmyndarfélag ÍSÍ.

Fyrri greinValdimar maður ársins í atvinnulífinu
Næsta greinLeitað að manni í Grímsnesinu