Guðmunda og þrír ungir leikmenn sömdu – Íslandsbanki áfram aðalstyrktaraðili

Knattspyrnudeild Umf. Selfoss gekk í dag frá samningum við fjóra leikmenn meistaraflokks kvenna og samstarfssamningi við Íslandsbanka á Selfossi.

Guðmunda Brynja Óladóttir, fyrirliði meistaraflokks, undirritaði nýjan tveggja ára samning. Guðmunda er einn af máttarstólpum Selfoss í meistaraflokki og lykilmaður í liði Selfoss í Pepsi deildinni sem hefst í maí.

Hún var markahæsti leikmaður liðsins á seinasta keppnistímabili með 11 mörk og var valin efnilegasti leikmaður Pepsi deildarinnar 2013 af þjálfurum og leikmönnum allra liða. Í nóvember 2013 lék hún sinn fyrsta A-landsleik og spilaði einnig með íslenska liðinu á Algarve mótinu í Portúgal í byrjun mars. Í apríl fer hún með landsliðinu til Ísrael og Möltu í undankeppni HM.

Við sama tilefni voru undirritaðir samningar við þrjár ungar og efnilegar knattspyrnukonur sem eru að stíga sín fyrstu skref í meistaraflokki. Þetta eru þær Bergrós Ásgeirsdóttir, Esther Ýr Óskarsdóttir og Sunneva Hrönn Sigurvinsdóttir sem allar eru fæddar árið 1997 og voru lykilmenn í öflugu lið 3. flokks á seinasta keppnistímabili.

Þá var endurnýjaður samningur við Íslandsbanka á Selfossi sem verður áfram einn helsti samstarfsaðili deildarinnar. Íslandsbanki hefur styrkt deildina um langt árabil og hlakkar knattspyrnufólk til áframhaldandi góðs samstarfs við bankann. Starf deildarinnar byggir á góðum stuðningi samstarfsaðila félagsins og því er mikill akkur í dyggum stuðningi öflugs fyrirtækis á borð við Íslandsbanka.

Fyrri greinNói kominn í Selfossbíó
Næsta greinRáðherraklipping við Litlu kaffistofuna