Guðmunda lánuð til Noregs fram að Íslandsmóti

Knattspyrnukonan Guðmunda Brynja Óladóttir frá Selfossi heldur á morgun til Noregs en hún hefur verið lánuð til norska úrvalsdeildarliðsins Klepp.

„Þetta er eitthvað sem ég er búin að stefna að lengi og er mjög spennt fyrir því að fá að prófa eitthvað nýtt. Klepp setti sig í samband við Selfoss og ég held að þetta eigi eftir að hjálpa mér og Selfossliðinu mikið í sumar,“ sagði Guðmunda í samtali við sunnlenska.is.

Guðmunda verður á láni hjá Klepp þangað til keppni í Pepsi-deild kvenna hefst í byrjun maí, þannig að hún ætti að ná fimm deildarleikjum í Noregi fram að keppnistímabilinu á Íslandi.

„Mér fannst fullkomið að geta farið í sex vikur og fengið að æfa á hæsta tempói við góðar aðstæður og í glænýju umhverfi. Ég þekki ekki mikið til liðsins en skilst að þetta sé sterkur klúbbur,“ bætir Guðmunda við.

Þjálfari Klepp er Jón Páll Pálmason, fyrrverandi þjálfari kvennaliðs Fylkis, og meðal leikmanna liðsins er norska landsliðskonan María Þórisdóttir, dóttir Selfyssingsins Þóris Hergeirssonar. Klepp hefur tvívegis unnið norska meistaratitilinn en liðið varð í 6. sæti í deildinni í fyrra.

Guðmunda fer með Klepp í æfingaferð til La Manga á Spáni á miðvikudaginn en liðið æfir þar í átta daga áður en átökin í Toppserien hefjast. Fyrsti leikur Klepp í deildinni er á heimavelli þann 28. mars gegn Hólmfríði Magnúsdóttur og félögum í Avaldsnes.

Gunnar Rafn Borgþórsson, yfirmaður knattspyrnumála hjá Selfossi, kveðst hæstánægður fyrir hönd Guðmundu og Selfoss.

„Það er frábært fyrir okkur að bæði karlar og konur séu að fara frá Selfossi út í atvinnumennsku og sýnir að allir krakkarnir okkar hafa jafna möguleika ef menn leggja hart að sér. Gumma er frábær fyrirmynd og á þetta svo sannarlega skilið,“ sagði Gunnar í samtali við sunnlenska.is.

Fyrri greinSveinn lætur af störfum sem landgræðslustjóri
Næsta greinStórsýning hestamanna á Hellu