Guðmunda boðuð á landsliðsfund

Guðmunda Brynja Óladóttir, Umf. Selfoss, er einn fjörutíu leikmanna sem boðuð er á fund A-landsliðs kvenna í knattspyrnu milli jóla og nýárs vegna framtíðarverkefna liðsins.

Framundan er spennandi ár hjá íslenska kvennalandsliðinu en fyrsta verkefnið er hið geysisterka Algarve mót sem hefst í lok febrúar. Þetta kemur fram á ksi.is.

Sigurður Ragnar Eyjólfsson, landsliðsþjálfari, valdi 40 manna hóp en það eru margir nýliðar á listanum og margar stelpur sem hafa verið að standa sig frábærlega með yngri landsliðunum.

Fundurinn fer fram 29. desember í höfuðstöðvum KSÍ á Laugardalsvelli og er fundarefnið framtíðarmarkmið liðsins og dagskrá næsta árs. Það segir líka í tilkynningu frá KSÍ að hópurinn muni breytast ef ástæða er til.

Fyrri greinViðvörun frá Veðurstofunni
Næsta greinOrðin forfallinn prjónafíkill