Guðrún Inga íþróttamaður ársins

Glímukonan Guðrún Inga Helgadóttir var útnefnd íþróttamaður ársins hjá Ungmennafélaginu Vöku á aðalfundi félagsins sem haldinn var í Þjórsárveri í síðustu viku.

Guðrún sem nú er komin í fullorðinsflokk sigraði fjölmörg glímumót á árinu. Hún var valin í landslið Íslands og keppti á Evrópumótinu í keltneskum fangbrögðum í apríl, og í lok árs var hún valin efnilegasta glímukona landsins af Glímusambandi Íslands.

Þá voru veitt verðlaun fyrir bestu afrek í frjálsum íþróttum. Bikar fyrir besta afrek fullorðinna vann Haraldur Einarsson fyrir 60 m hlaup 7,08 sek sem gefur 918 stig. Bikar fyrir besta afrek unglinga vann Dagur Fannar Einarsson fyrir 60 m hlaup 9,0 sek sem gefur 914 stig.

Starfsíþróttabikar Vöku hlaut Jón Valgeir Geirsson, sigurvegari í dráttarvélarakstri á Landsmóti UMFÍ í sumar.

Félagsmálabikarinn hlaut Helga Björg Helgadóttir fráfarandi ritari fyrir átta ára setu í stjórn félagsins og virka þátttöku í leiklistarstarfi.

Helga Björg gaf ekki kost á sér áfram og í hennar stað var Erla Björg Aðalsteinsdóttir kosin. Bjarni Már Ólafsson gaf ekki kost á sér áfram sem formaður íþróttanefndar og var Guðrún Inga kosin í hans stað.

Stjórn Vöku er þá þannig skipuð:
Formaður: Guðmunda Ólafsdóttir
Gjaldkeri: Hallfríður Ósk Aðalsteinsdóttir
Ritari: Erla Björg Aðalsteinsdóttir
Formaður: íþróttanefndar Guðrún Inga Helgadóttir
Formaður skemmtinefndar: Sveinn Orri Einarsson
Formaður ritnefndar: Fanney Ólafsdóttir
Varastjórn: Halldór Bjarnason, Bjarni Már Ólafsson og Þorsteinn Logi Einarsson

Endurskoðandi: Kristján Gestsson
Varaendurskoðandi: Bjarki Reynisson
Varafulltrúi á héraðsþing: Halldór Bjarnason

Fyrri greinEyþór hættir
Næsta greinAukin rafleiðni í Múlakvísl