Guðrún í Breiðablik

Varnarmaðurinn sterki, Guðrún Arnardóttir, hefur gengið til liðs við Breiðablik. Þessi efnilega knattspyrnukona var einn af lykilmönnum Selfossliðsins í sumar.

Breiðablik sendi frá sér fréttatilkynningu undir kvöld þar sem þetta var staðfest.

Guðrún er aðeins 16 ára gömul en á samt að baki 17 leiki með meistaraflokki Selfoss og hefur skorað í þeim tvö mörk.

Hún er varnarmaður sem hefur leikið 10 landsleiki með U17 ára landsliði kvenna og var með liðinu í undankeppni Evrópumótsins í Austurríki í október.