Guðni kom til bjargar

Stokkseyringar unnu 3-2 seiglusigur á Stál-úlfi þegar keppni hófst í B-riðli 4. deildar karla í knattspyrnu í kvöld. Guðni Þór Þorvaldsson kom Stokkseyringum til bjargar með tveimur mörkum undir lokin.

Gestirnir fengu fyrsta færi leiksins strax á 5. mínútu þegar boltanum var stungið innfyrir vörn Stokkseyrar en í rammanum var Hlynur Kárason til varnar og greip hann inní með góðu úthlaupi. Stál-úlfur var meira með boltann í fyrri hálfleik og fyrsta mark leiksins var nokkuð gegn gangi hans. Stokkseyringar fengu hornspyrnu á 15. mínútu sem Arnar Þór Halldórsson tók og rataði hún beint í leikmann Stál-úlfs sem stóð í markteignum og af honum fór boltinn í netið.

Annars var fyrri hálfleikur ákaflega tíðindalítill en gestirnir áttu stangarskot á 27. mínútu og skömmu áður var mark dæmt af Stál-úlfi vegna naumrar rangstöðu þannig að óhætt er að segja að þeir hafi verið líklegri framan af leiknum.

Staðan var 1-0 í hálfleik og seinni hálfleikur var, líkt og sá fyrri, ákaflega daufur framan af, en fjörið byrjaði þegar tuttugu mínútur voru eftir. Á 71. mínútu kom varamaðurinn Guðni Þór Þorvaldsson Stokkseyri í 2-0 með marki eftir hornspyrnu en átta mínútum síðar minnkaði Stál-úlfur muninn í 2-1. Sending innfyrir Stokkseyrarvörnina og sóknarmaður Stál-úlfs lyfti boltanum yfir Hlyn í markinu. Mínútu síðar voru Stál-úlfarnir nálægt því að endurtaka leikinn með samskonar marki en boltinn fór rétt yfir í þetta skiptið.

Í stöðunni 2-1 urðu Stokkseyringar örvæntingarfullir og gestirnir sóttu stíft. Það var því mikill léttir fyrir heimamenn þegar Guðni Þór tryggði þeim sigurinn með marki úr vítaspyrnu á 86. mínútu. Brotið var á Guðna innan teigs og hann fór sjálfur á punktinn og hamraði knöttinn í netið.

Stál-úlfur átti síðasta orðið í leiknum en á síðustu mínútu uppbótartímans minnkuðu gestirnir muninn í 3-2 eftir klafs í vítateig Stokkseyrar uppúr hornspyrnu. Stokkseyringar tóku miðju eftir markið og um leið flautaði dómarinn leikinn af.