Guðni fann netmöskvana

Ægir og Víðir áttust við í foráttuveðri á Leiknisvelli í Breiðholti í Lengjubikar karla í knattspyrnu í dag. Lokatölur voru 1-1.

Eftir markalausan fyrri hálfleik komust Víðismenn yfir í seinni hálfleik með sjálfsmarki Hlyns Kárasonar, markvarðar Ægis. Víðismenn skutu að marki með vindinn í bakið, boltinn fór í þverslána og niður, í bakið á Hlyn og þaðan í netið.

Ægismenn höfðu verið sterkari í fyrri hálfleik og þrátt fyrir að leika með vindinn og regnið í fangið höfðu Ægismenn áfram undirtökin í seinni hálfleik. Það var þó fátt um opin færi en þegar um tíu mínútur voru eftir af leiknum leit jöfnunarmarkið ljós.

Þar var á ferðinni “gamla” kempan Guðni Þór Þorvaldsson. Eftir snarpa og snyrtilega sókn sneri Guðni á aftasta varnarmann og skaut með vinstri í fjærhornið.

Þetta var fyrsta stig Ægis í riðlinum en Víðismenn eru í 2. sæti riðilsins með fjögur stig þegar tveimur umferðum er lokið.