Guðmundur markahæstur í stórsigri

Selfyssingurinn Guðmundur Árni Ólafsson skoraði 6 mörk í 37-24 sigri U21 árs landsliðs Íslands í handbolta á Makedónum í dag.

Liðin mættust í undanriðli Heimsmeistaramótsins en riðillinn er leikinn í Serbíu. Íslenska liðið hafði mikla yfirburði í leiknum og leiddi í hálfleik 21-11.

Guðmundur var markahæstur í íslenska liðinu. Bjarki Már Elíasson og Ragnar Jóhannsson skoruðu báðir þrjú mörk.

Ísland mætir Eistlandi á morgun kl. 19 að íslenskum tíma og heimamönnum, Serbum, á sunnudaginn. Liðið sem vinnur riðilinn tryggir sér sæti á Heimsmeistaramótinu sem fram fer í Grikklandi byrjun júlí næstkomandi.