Guðmundur Karl íþróttamaður Ölfuss 2016

Knattspyrnumaðurinn Guðmundur Karl Guðmundsson var kjörinn íþróttamaður ársins 2016 í Ölfusi en viðurkenningin var veitt í Ráðhúsi Ölfuss í gær.

Fram kom á verðlaunahátíðinni að valið hafi verið mjög erfitt þar sem margir íþróttamenn úr Ölfusi sköruðu fram úr í sinni grein á síðasta ári.

Guðmundur Karl hefur leikið knattspyrnu með Fjölni í Grafarvoginum í Pepsí-deild karla undanfarin ár. Hann átti mjög gott tímabil á síðasta ári en Guðmundur er mjög fjölhæfur leikmaður sem getur leyst margar stöður á vellinum. Að keppnistímabilinu loknu skrifaði Guðmundur svo undir samning við Íslandsmeistara FH.

Guðmundur Karl skaraði reyndar framúr á fleiri sviðum því hann varð klúbbmeistari Golfklúbbs Þorlákshafnar síðastliðið sumar og var einnig tilnefndur sem íþróttamaður ársins fyrir hönd golfklúbbsins.

Tólf íþróttamenn voru tilnefndir í kjörinu um íþróttamann Ölfuss 2016 en listann má sjá hér fyrir neðan. Einnig voru viðurkenningar veittar til þeirra sem unnið hafa bikar- eða Íslandsmeistaratitil á árinu og/eða hafa keppt með landsliði Íslands í sinni grein.

Þessi voru tilnefnd til íþróttamanns Ölfuss 2016:
Guðmundur Karl Guðmundsson – Tilnefndur af Golfklúbbi Þorlákshafnar
Birta Óskarsdóttir – Tilnefnd af Ungmennafélaginu Þór, fimleikadeild
Viktor Karl Halldórsson – Tilnefndur af Knattspyrnufélaginu Ægi
Katrín Stefánsdóttir – Tilnefnd af Hestamannafélaginu Háfeta
Glódís Rún Sigurðardóttir – Tilnefnd af Hestamannafélaginu Ljúfi
Halldór Garðar Hermannsson – Tilnefndur af Ungmennafélaginu Þór, körfuknattleiksdeild
Styrmir Dan Steinunnarson – Tilnefndur af Ungmennafélaginu Þór, frjálsíþróttadeild
Axel Örn Sæmundsson – Tilnefndur af Ungmennafélaginu Þór, badmintondeild
Gyða Dögg Heiðarsdóttir – Tilnefnd af Ungmennafélaginu Þór, akstusíþróttadeild
Guðmundur Karl Guðmundsson – Tilnefndur af íþrótta- og æskulýðsnefnd fyrir knattspyrnu
Snorri Þór Árnason – Tilnefndur af íþrótta- og æskulýðsnefnd fyrir akstursíþróttir
Þorsteinn Helgi Sigurðarson – Tilnefndur af íþrótta- og æskulýðsnefnd fyrir hnefaleika

Fyrri greinÖruggur sigur Selfoss í uppgjöri botnliðanna
Næsta greinSameinuð