Guðmundur Garðar þjálfar KFR

Guðmundur Garðar Sigfússon hefur verið ráðinn spilandi þjálfari meistaraflokks Knattspyrnufélags Rangæinga sem leikur í nýju 3. deildinni á komandi keppnistímabili.

Guðmundur hefur leikið með Knattspyrnufélagi Árborgar undanfarin tólf ár, samtals 206 leiki og skorað í þeim 58 mörk. Hann þjálfaði Árborg á síðasta keppnistímabili í gömlu 3. deildinni og var það í fyrsta skipti sem hann þjálfaði meistaraflokk. Hann er íþróttakennari að mennt og hefur þjálfað yngri flokka hjá Selfossi árum saman.

KFR féll úr 2. deildinni á liðnu sumri en liðið var í botnsæti deildarinnar, vann aðeins einn leik og gerði þrjú jafntefli. Ómar Valdimarsson þjálfaði liðið fram í ágúst þegar hann sagði upp og Lárus Viðar Stefánsson tók við liðinu út tímabilið.

Fyrri greinBuster fann lykt út um gluggann
Næsta greinHafsteinn valinn íþróttamaður Hveragerðis 2012