Guðmundur Ármann bestur

Guðmundur Ármann Böðvarsson var valinn leikmaður ársins hjá Knattspyrnufélagi Árborgar en lokahóf félagsins fór fram á Stað á Eyrarbakka um helgina.

Guðmundur var einnig valinn sóknarmaður ársins en hann var markakóngur liðsins með 21 mark og markahæstur í 3. deildinni. Enginn hefur skorað fleiri mörk en Guðmundur í karladeildum Íslandsmótsins í sumar.

Arnar Freyr Óskarsson var valinn bjartasta vonin hjá Árborg auk þess að vera miðjumaður ársins og Jakob Björgvin Jakobsson var valinn varnarmaður ársins.

Stefán Magni Árnason var valinn félagi ársins og margir leikmenn fengu verðlaun fyrir leikjafjölda með Árborg. Guðmundur Garðar Sigfússon fékk t.a.m. viðurkenningu fyrir 150 leiki en hann er leikjahæsti leikmaður liðsins.

Þá voru fjórir félagar heiðraðir með gullmerki Árborgar í tilefni af 10 ára afmæli félagsins á þessu ári. Guðmundur Garðar og Theodór Guðmundsson fengu gullmerki en þeir hafa báðir leikið með liðinu öll tíu árin. Þá voru Adólf Ingvi Bragason og Þórarinn Snorrason sæmdir gullmerki en þeir eru tveir af stofnendum félagsins og hafa sinnt ýmsum störfum fyrir það á síðustu árum sem leikmenn, þjálfarar og stjórnarmenn.