Guðmunda útnefnd íþróttamaður HSK

Knattspyrnukonan Guðmunda Brynja Óladóttir, Umf. Selfoss, var útnefnd íþróttamaður Héraðssambandsins Skarphéðins 2013 á 92. héraðsþingi HSK á Borg í Grímsnesi í dag.

Guðmunda átti einstaklega gott ár í boltanum í fyrra en hún spilaði frábærlega með liði Selfoss í Pepsi-deildinni og skoraði 11 mörk í 19 deildarleikjum, eða 58% allra marka Selfossliðsins. Guðmunda var valin efnilegasti leikmaður Pepsi-deildarinnar í fyrra af þjálfurum og leikmönnum deildarinnar.

Guðmunda hefur verið atkvæðamikil með unglingalandsliðum Íslands og æfði með bæði U19 og A-landsliðinu á árinu. Í nóvember kom svo kallið frá A-landsliðinu og spilaði hún þá sinn fyrsta A-landsleik gegn Serbíu í undankeppni HM. Þar með varð hún fyrsti A-landsliðsmaður Selfoss sem tekur þátt í opinberu móti á vegum FIFA.

Guðmunda er nú stödd með A-landsliðinu á Algarve-mótinu í Portúgal og gat því ekki veitt bikarnum viðtöku sjálf.

Aðrir tilefndir í kjörinu voru:
Akstursíþróttamaðurinn Snorri Þór Árnason, Torfæruklúbbi Suðurlands
Badmintonmaðurinn Axel Örn Sæmundsson, Þór
Blakmaðurinn Hafsteinn Valdimarsson, Hamri
Borðtennismaðurinn Bjarmi Bergþórsson, Dímon
Briddsmaðurinn Hrannar Erlingsson, Selfoss
Fimleikamaðurinn Eysteinn Máni Oddsson, Selfoss
Frjálsíþróttamaðurinn Kristinn Þór Kristinsson, Samhygð
Kylfingurinn Fannar Ingi Steingrímsson, GHG
Glímukonan Marín Laufey Davíðsdóttir, Samhygð
Handknattleiksmaðurinn Einar Sverrisson, Selfoss
Hestaíþróttamaðurinn Sigursteinn Sumarliðason, Sleipni
Íþróttamaður fatlaðra Hulda Sigurjónsdóttir, Suðra
Júdómaðurinn Egill Blöndal, Selfoss
Kraftlyftingakonan Rósa Birgisdóttir, Selfoss
Körfuknattleiksmaðurinn Ragnar Nathanaelsson, Hamri/Þór
Mótorkrossmaðurinn Þorsteinn Helgi Sigurðarson, Þór
Skákmaðurinn Björgvin Smári Guðmundsson, Heklu
Skotmaðurinn Gunnar Gunnarson, SFS
Starfsíþróttamaðurinn Viðar Steinarsson, Heklu
Sundmaðurinn Þórir Gauti Pálsson, Selfoss
Taekwondokonan Ingibjörg Erla Grétarsdóttir, Selfoss.