Guðmunda stóð sig vel í Rússlandi

Selfyssingurinn Guðmunda Brynja Óladóttir stóð sig vel með U-19 ára landsliði Íslands í knattspyrnu sem lék í milliriðli Evrópumótsins í knattspyrnu í Rússlandi í dymbilvikunni. Guðmunda er aðeins 15 ára gömul og er yngsti leikmaður U-19 ára liðsins.

Ísland lék fyrst gegn Spáni þar sem Guðmunda kom inná á 88. mínútu í 3-2 sigurleik.

Næst léku íslensku stelpurnar gegn Rússum þar sem Guðmunda lék allan síðari hálfleikinn og uppskar m.a. gult spjald. Rússland sigraði 1-0 í þessum leik.

Í lokaumferðinni mættu Íslendingar Tékkum en sá leikur tapaðist mjög óvænt, 2-1. Guðmunda spilaði allan leikinn og stóð sig vel.

Ef Ísland hefði unnið leikinn gegn Tékkum hefði liðið tryggt sér sæti í úrslitakeppni EM annað árið í röð.

Fyrri greinÓveður á Fimmvörðuhálsi
Næsta greinSelfyssingar til Spánar