Guðmunda skorar og skorar

Selfyssingurinn Guðmunda Brynja Óladóttir skoraði mark fyrir U17 ára lið Íslands þriðja leikinn í röð þegar Ísland lagði Svíþjóð 4-1 í dag.

Íslenska liðið komst yfir á 14. mínútu en Svíar jöfnuðu á þeirri 33. og var það eina markið sem Ísland fékk á sig í milliriðlinum. Guðmunda kom svo stelpunum yfir að nýju aðeins tveimur mínútum eftir jöfnunarmarkið og þannig var staðan þegar liðin gengu til búningsherbergja leikhléi.

Guðmunda fór svo útaf á 48. mínútu en Ísland bætti við tveimur mörkum í seinni hálfleik. Guðrún Arnardóttir var í byrjunarliðinu í sínum fyrsta landsleik og átti frábæran leik.

Ísland lauk keppni í riðlinum með fullt hús stiga og tryggði sér sæti í undanúrslitum EM. Úrslitakeppnin fer fram í Nyon í Sviss, dagana 28. – 31. júli og mun íslenska liðið mæta núverandi Evrópumeisturum Spánverja í undanúrslitum.