Guðmunda skoraði í sigurleik U19

Guðmunda Brynja Óladóttir skoraði fyrra mark U19 ára liðs Íslands í 2-1 sigri á Slóveníu á Valsvellinum í Reykjavík í dag.

Fyrsta mark Íslands hafði legið ansi lengi í loftinu þegar það kom loksins á 41. mínútu. Fjolla Shala sendi þá háan bolta upp völlinn á Guðmundu sem slapp auðveldlega í gegnum vörn Slóveníu og skoraði snyrtilega framhjá Katarinu Pus í markinu.

Markið reyndist eina mark fyrra hálfleiks og staðan því 1-0 þegar Zuzana Kováčová, dómari leiksins, flautaði til hálfleiks.

Íslenska liðið hafði algjöra yfirburði í seinni hálfleik líkt og þeim fyrri en þrátt fyrir það jöfnuðu gestirnir með langskoti sem skoppaði yfir markvörð Íslands á 64. mínútu. Íslensku stúlkurnar voru hins vegar staðráðnar í að næla í sigur en það tók þær aðeins sjö mínútur að komast aftur yfir og var það Katrín Gylfadóttir sem skoraði sigurmarkið.

Í hinum leiknum í riðlinum vann Wales Kazakstan 3-0.

Ísland leikur næst gegn Kazakstan á mánudaginn kl. 16 og fer leikurinn fram á Selfossvelli.