Guðmunda skoraði aftur

Selfyssingurinn Guðmunda Brynja Óladóttir skoraði fyrsta mark U17 ára liðs Íslands í 3-2 sigri á Svíum í dag.

Liðin mættust í A-riðli Norðurlandameistaramótsins en með sigrinum komst Ísland í bronsleik mótsins og mætir þar Noregi á laugardag. Með sigri geta Íslendingar orðið Norðurlandameistarar þar sem USA og Þýskaland leika úrslitaleikinn, en þær þjóðir eru báðar gestaþjóðir á mótinu.

Guðmunda var í byrjunarliðinu og skoraði strax á 3. mínútu. FH-ingurinn Aldís Kara Lúðvíksdóttir og Valsarinn Hildur Antonsdóttir skoruðu hin mörk Íslands.