Guðmunda með þrennu í fyrsta leik

Selfoss vann öruggan sigur á Fjölni í 1. umferð 1. deildar kvenna í knattspyrnu í kvöld, 3-0. Guðmunda Óladóttir skoraði öll mörk Selfoss í leiknum.

Leikurinn var bragðdaufur í fyrri hálfleik og einkenndist af þófi á miðjunni. Liðunum gekk illa að skapa sér færi en Fjölnismenn voru fyrri til þegar leikmaður þeirra fékk boltann á auðum sjó fyrir framan mark Selfoss á 17. mínútu en hitti knöttinn illa.

Það var ekki fyrr en rúmur hálftími var liðinn að draga tók til tíðinda. Á 38. mínútu átti Anna Þorsteinsdóttir góða fyrirgjöf sem Thelma Sif Kristjánsdóttir stangaði í stöng Fjölnismarksins. Tveimur mínútum síðar slapp Anna María Friðgeirsdóttir innfyrir þar sem varnarmaður Fjölnis braut á henni. Guðmunda fór á punktinn og skoraði af öryggi.

Staðan var 1-0 í hálfleik en strax á 3. mínútu síðari hálfleiks slapp Guðmunda ein innfyrir og framhjá markverði Fjölnis. Hún reyndi skot úr þröngri stöðu sem fór í höndina á varnarmanni Fjölnis og Sigurður Orri Baldursson gat lítið annað gert en að dæma vítaspyrnu. Guðmunda fór aftur á punktinn og brást ekki bogalistin frekar en fyrri daginn.

Selfyssingar voru sprækari á upphafsmínútum seinni hálfleiks og á 51. mínútu átti Guðrún Arnardóttir skot rétt framhjá með viðkomu í varnarmanni Fjölnis. Færið kom upp úr hornspyrnu en annars gekk Selfossliðinu illa að skapa hættu eftir föst leikatriði þar sem spyrnur liðsins voru slakar.

Að frá töldum fyrstu sex mínútum seinni hálfleiks var leikurinn tilþrifalítill á báða bóga. Selfossliðið hélt boltanum betur en komst lítið áleiðis gegn góðri vörn Fjölnis. Gestirnir áttu góðar sóknir, sérstaklega upp vinstri kantinn og besta færi þeirra kom úr aukaspyrnu vinstra megin við vítateiginn sem fór rétt framhjá markinu.

Það var ekki fyrr en á 90. mínútu að Selfyssingar sköpuðu sér færi þegar Guðmunda lék upp allan vallarhelming Fjölnis og inn í vítateig þar sem hún renndi boltanum snyrtilega framhjá markverði Fjölnis.

Þar með innsiglaði Guðmunda þrennuna og fyrsta sigur Selfoss á þessu sumri. Þrátt fyrir góðan sigur á Selfossliðið töluvert inni en liðið virkaði þungt og sóknarleikurinn var ekki hugmyndaríkur. Bergþóra Gná Hannesdóttir átti góðan leik á miðjunni og Guðrún Arnardóttir var sterk í vörninni auk þess sem Kristrún Antonsdóttir átti lipra spretti í fyrri hálfleik.