Guðmunda í A-landsliðið

Guðmunda Brynja Óladóttir, sóknarmaður frá Selfossi, hefur verið valin í 22 manna hóp íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu fyrir leikina gegn N-Írum og Norðmönnum í undankeppni EM.

Guðmunda var síðast valin í 22 manna hóp í fyrravor fyrir leik Íslands og Búlgaríu en var ekki í endanlegum leikmannahópi liðsins.

Rangæingarnir Dagný Brynjarsdóttir og Hólmfríður Magnúsdóttir eru á sínum stað í hópnum. Hólmfríður hefur leikið 72 landsleiki en Dagný 20.

Leikirnir sem framundan eru eru gríðarlega mikilvægir en með sigri gegn Norður Írum á Laugardalsvellinum 15. september tryggir liðið sér sæti í umspili fyrir úrslitakeppnina og kemur sér í góða stöðu fyrir lokaleik liðsins gegn Norðmönnum, sem fram fer á Ullevål í Osló miðvikudaginn 19. september.