Guðmunda gerði þriggja ára samning

Ein efnilegasta knattspyrnukona landsins, Guðmunda Brynja Óladóttir, hefur gert þriggja ára samning við Selfoss.

Guðmunda, sem er 17 ára gömul, hefur verið lykilmaður í meistaraflokki Selfoss síðustu tvö ár auk þess að leika stórt hlutverk í U17 ára landsliði Íslands. Þá var hún í liði 3. flokks Selfoss sem varð Íslandsmeistari í haust auk þess sem hún var valin íþróttakona Árborgar árið 2010.

Hún segir næstu ár spennandi á Selfossi og aldrei hafi annað komið til greina en að leika með liðinu þó að mörg félög í efstu deild hafi haft áhuga á að fá hana í sínar raðir.

“Mér líst vel á Bubba [Björn Kristinn Björnsson, þjálfara] og ég finn að ég er búin að bæta mig mikið hjá honum. Það er líka mikill metnaður í liðinu að fara upp í efstu deild. Það sama má segja um stjórn deildarinnar sem vill allt fyrir okkur gera svo að við getum bætt okkur,” sagði Guðmunda í samtali við sunnlenska.is eftir undirskriftina.

“Það er spennandi sumar framundan og það er mikil pressa á manni að standa sig, sérstaklega þar sem Katrín Ýr er meidd og verður ekki með fyrr en um miðjan júlí. En við erum með þrusugott lið og við erum flestar að bæta okkur, nema Anna María, hún er enn smá feit og þarf að taka aukaæfingar,” segir Guðmunda og hlær. “Nei, við verðum þrusuflottar í sumar. Við ætlum okkur að fara upp í efstu deild og halda okkur þar. Miðað við bætinguna á liðinu þá held ég að við eigum alveg erindi þangað.”

Samkvæmt heimildum sunnlenska.is voru mörg félög áhugasöm um að fá Guðmundu í sínar raðir en hún gefur lítið fyrir það. “Ég var búin að heyra eitthvað af því. Svo hafa stelpurnar á landsliðsæfingum verið að reyna að tala mig yfir í sín félög en ég hlusta ekkert á þær,” segir Guðmunda létt í bragði.

Guðmunda hefur æft með U17 ára og U19 ára landsliðum Íslands í vetur og stefnir á að komast í æfingaferðir með báðum liðum í vor. En dreymir hana ekki um atvinnumennsku í framtíðinni? “Jú, ég stefni á það. Mig langar að komast til Bandaríkjanna eða Svíþjóðar þegar ég er búin með FSu.”