Guðmunda framlengir við Selfoss

Guðmunda Brynja Óladóttir, fyrirliði kvennaliðs Selfoss í knattspyrnu, hefur gert nýjan tveggja ára samning við félagið.

„Ég er mjög ánægð með að framlengja við Selfoss. Hér er hugsað vel um kvennaboltann og það verður skemmtilegt að fá að halda áfram að byggja upp öflugt lið hér á svæðinu,“ sagði Guðmunda í samtali við sunnlenska.is. „Í svona góðu umhverfi þá fæ ég tækifæri til þess að halda áfram að bæta mig sem leikmaður.“

Guðmunda er 21 árs sóknarmaður en hún hefur verið lykilmaður í meistaraflokksliði félagsins alveg frá 15 ára aldri, þegar Selfoss hóf aftur að tefla fram meistaraflokki á Íslandsmóti.

Síðan þá hefur Guðmunda skorað 77 mörk í 118 leikjum í deild og bikar. Auk þess hefur hún verið fastamaður í A-landsliðshóp Íslands að undanförnu og hefur leikið níu A-landsleiki.

Fyrri greinÁrborgarar safna fyrir Kotið
Næsta greinVerðlaun veitt í fjórum flokkum