Guðmunda fiskaði „sigurvítið“

Dagný Brynjarsdóttir og Guðmunda Brynja Óladóttir voru báðar í sigurliði Íslands sem lagði Holland í æfingaleik A-landsliða kvenna í knattspyrnu í Kórnum í Kópavogi í dag.

Dagný var í byrjunarliðinu og spilaði allan leikinn en Guðmunda kom inná í fremstu víglínu á 70. mínútu og frískaði mjög upp á sóknarleik Íslands.

Holland komst yfir á 18. mínútu og leiddi 0-1 í hálfleik. Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir jafnaði fyrir Ísland eftir hornspyrnu á 71. mínútu og íslenska liðið sótti mjög í sig veðrið í kjölfarið.

Á 80. mínútu renndi Dagný boltanum inn á Guðmundu sem var felld í vítateignum og Ísland fékk víti. Sara Björk Gunnarsdóttir fór á vítapunktinn og skoraði sigurmarkið.

Fyrri greinPáll Valur: Er ekki vitlaust gefið?
Næsta greinKannar meðferð kransæðasjúkdóms hjá konum