Guðjón Orri í Selfoss

Selfyssingar hafa samið til tveggja ára við markvörðinn Guðjón Orra Sigurjónsson og mun hann leika með liðinu í Inkasso-deildinni næsta sumar.

Guðjón Orri, sem er 24 ára gamall, kemur til Selfyssinga frá Stjörnunni. Þar áður lék Guðjón með ÍBV í Pepsi-deildinni en hann er uppalinn í Vestmannaeyjum. Hann hefur leikið 29 leiki í efstu deild, þar af 5 með Stjörnunni í sumar.

„Gunni [Borgþórsson] hafði samband og hann seldi mér sínar hugmyndir og mér leist bara vel á þær. Það er hugur í félaginu og ég ákvað bara að kýla á þetta því mig langar til þess að spila reglulega,“ sagði Guðjón Orri í samtali við sunnlenska.is.

„Ég var varamarkvörður Stjörnunnar í sumar og þar áður var ég varamarkvörður hjá ÍBV. Ég tók reyndar ágætis seríu með ÍBV í fyrrasumar, spilaði alla fyrri umferðina og tvo leiki í seinni þannig að ég hef fengið smjörþefinn af Pepsi-deildinni og þekki hana vel. Ég er hins vegar mjög spenntur fyrir því að koma hingað á Selfoss og taka þátt í baráttunni með liðinu í Inkasso-deildinni,“ segir Guðjón Orri ennfremur en fleiri lið voru áhugasöm um að fá hann í sínar raðir.

„Það voru þreifingar frá liðum í Pepsi-deildinni en mér leist strax mjög vel á það sem Gunni hafði fram að færa. Ég þekki líka nokkur andlit hérna og svo er Selfoss nálægt Vestmannaeyjum þannig að þetta liggur beint við,“ sagði Guðjón léttur að lokum.

Adólf Bragason, formaður knattspyrnudeildar Selfoss, segist himinlifandi með komu Guðjóns Orra til félagsins.

„Gaui fellur vel inní í það umhverfi sem við erum að skapa og það er ekkert launungarmál að við ætlum okkur að gera harða hríð að því að komast í Pepsideildina. Til þess þurfum við sterka karaktera í okkar lið,“ segir Adólf og bætir við að það hafi verið klókt hjá Guðjóni að velja það að koma á Selfoss.

„Við erum með frábært þjálfarateymi og mjög gott umhverfi þannig að á Selfossi mun Gaui taka næsta skref og verða einn fremsti markvörður landsins. Það skemmir heldur ekki fyrir að Gaui er frá Vestmannaeyjum; góður Eyjamaður er gulls ígildi.“

Guðjón mun leysa Vigni Jóhannesson af hólmi en hann gekk til liðs við FH í dag eftir tvö ár hjá Selfoss. Guðmundur Karl Guðmundsson frá Þorlákshöfn gekk einnig til liðs við FH í dag frá Fjölni.

Fyrri greinArna, Bergrún og Birta sigruðu
Næsta grein„Þetta fjaraði hratt út hjá okkur“