Guðjón Bjarni þjálfar Árborg

Guðjón Bjarni Hálfdánarson hefur verið ráðinn þjálfari meistaraflokks 4. deildarliðs Knattspyrnufélags Árborgar.

Guðjón Bjarni tekur við starfinu af Guðmundi Garðari Sigfússyni en hann var aðstoðarþjálfari Guðmundar síðastliðið sumar. Liðið komst ekki í úrslitakeppni 3. deildarinnar í sumar og mun því leika í nýju 4. deildinni að ári.

Guðjón Bjarni er reynslumikill þjálfari og leikmaður en hann hefur þjálfað yngri flokka hjá Selfossi, Hamri og Ægi. Hann lék með Ægi, Breiðablik, Hamri og Selfoss áður en hann gekk í raðir Árborgar árið 2009.