Grýluvöllur meðal flottustu knattspyrnuvalla landsins

Grýluvöllur. Mynd úr safni.

RÚV fékk hóp álitsgjafa til að skera úr um það hvert væri flottasta vallarstæði landsins í íslenskri knattspyrnu. Hásteinsvöllur í Vestmannaeyjum var efstur á blaði en skammt þar á eftir kemur Grýluvöllur í Hveragerði.

„Grýluvöllur í Hveragerði er völlur sem enginn gleymir. Lið Hamars er í fjórðu deild karla en völlurinn er í efstu deild, ef svo má að orði komast. Hverir, grasbrekka og alvöru neðri deildar fótbolti er uppskrift að frábærum leikdegi,“ segir í umfjöllun RÚV.

Gunnar á Völlum er einn álitsgjafa RÚV og hann segir það stórbrotið að vera á Grýluvellinum. „Það er ekki bara einstök náttúra sem heillar heldur leitar hugur í að bæjaryfirvöld girði sig í brók og fullkomni völlinn,“ segir Gunnar.

Flúðavöllur er einn sá flottasti. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Fleiri sunnlenskir vellir komast á blað. Landsliðskonan Arna Sif Ásgrímsdóttir nefnir Selfossvöll, Magnús Már Einarsson þjálfari Aftureldingar er hrifinn af Flúðavelli og Páll Kristjánsson, formaður KR, telur Þorlákshafnarvöll einstakan á sinn hátt. Þá er Terje Mollestad, vallarsérfræðingur hjá Nordic Stadiums, ánægður með Stokkseyrarvöllur, sem verður að teljast gæðastimpill.

Hægt er að lesa skemmtilega umfjöllun RÚV um íslenska knattspyrnuvelli hér.

 

Fyrri greinHamar sigraði á unglingamóti HSK í badminton
Næsta greinPlokkað um allt land um helgina