Grótta vann í vítakeppni

Hamarsmenn eru fallnir úr keppni í VISA-bikar karla í knattspyrnu eftir 5-6 tap fyrir Gróttu í kvöld. Úrslitin réðust í vítakeppni.

Hamarsmenn mættu hvergi bangnir á Grýluvöll gegn 1. deildarliði Gróttu og börðust af krafti allan leikinn. Fyrstu 90 mínúturnar voru markalausar en þegar komið var fram í síðari hálfleik framlengingar dró til tíðinda.

Grótta komst yfir á 108. mínútu og var markið frekar skrautlegt. Hamarsmenn voru að hreinsa frá þegar varnarmaður Hamars sparkar í ógáti í andlit eins Gróttumanns. Sá lá eftir og bjuggust flestir við að dómarinn myndi stöðva leikinn vegna höfuðmeiðsla. Í það minnsta héldu Hamarsmenn það því þeir hættu eitt augnablik og Dan Howell hljóp í gegn og skoraði fyrir Gróttu.

Þetta sló heimamenn þó ekki út af laginu því aðeins mínútu síðar jafnaði Helgi Guðnason leikinn fyrir Hamar með sannkölluðu draumamarki. Helgi smurði knettinum af 30 metra færi upp í samskeytin framhjá Kristjáni Finnbogasyni í marki Gróttu. Eftir þetta spiluðu liðin varlega og ætluðu sér greinilega í vítaspyrnukeppni en Hamarsmenn fengu reyndar tvö hálffæri á lokamínútunum sem vel hefðu getað skilað marki.

Grótta nýtti allar spyrnur sínar í vítakeppninni en Vigfús Geir Júlíusson negldi fjórðu spyrnu Hamars í stöngina og það var það sem skildi liðin að í kvöld.

Gangur vítakeppninnar:
1-0 > Alexandre Tselichtchev
1-1 > Ásgrímur Sigurðsson
2-1 > Ágúst Örlaugur Magnússon
2-2 > Elvar Freyr Arnþórsson
3-2 > Helgi Guðnason
3-3 > Knútur Rúnar Jónsson
3-3 X Vigfús Geir Júlíusson
3-4 > Pétur Már Harðarson
4-4 > Atli Sigurðsson
4-5 > Dan Howell