Grófu sér djúpa holu í upphafi leiks

Ana Clara Paz. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Hamar/Þór heimsótti Stjörnuna í úrvalsdeild kvenna í körfubolta í kvöld. Stjörnukonur reyndust sterkari á heimavelli í Garðabænum og sigruðu 87-75.

Stjarnan var allsráðandi í upphafi leiks og Hamar/Þór var komið í djúpa holu strax eftir sex mínútur þegar staðan var orðin 21-4. Staðan var 24-13 eftir 1. leikhluta og munurinn hélst svipaður í 2. leikhluta. Stjarnan leiddi 46-33 í hálfleik.

Það kviknaði loksins á þeim sunnlensku í 3. leikhluta og þær minnkuðu muninn í fimm stig, 61-56. Munurinn var kominn niður í þrjú stig í upphafi 4. leikhluta en þá tóku Stjörnukonur við sér aftur og juku forskotið jafnt og þétt til leiksloka.

Ana Clara Paz var stigahæst hjá Hamri/Þór með 22 stig en Jada Guinn var framlagshæst með 16 stig, 12 fráköst og 8 stoðsendingar.

Hamar/Þór er áfram í botnsæti deildarinnar með 2 stig en Stjarnan er í 7. sæti með 14 stig.

Stjarnan-Hamar/Þór 87-75 (24-13, 22-20, 17-25, 24-17)
Tölfræði Hamars/Þórs: Ana Clara Paz 22/5 fráköst/5 stoðsendingar, Jada Guinn 16/12 fráköst/8 stoðsendingar, Jóhanna Ýr Ágústsdóttir 15, Jovana Markovic 13/6 fráköst, Mariana Duran 7/5 fráköst, Bergdís Anna Magnúsdóttir 2.

Fyrri greinSveinn Ægir sækist eftir 2. sætinu
Næsta greinMatthías vill leiða lista Framsóknar