Grindavík yfir í einvíginu

Þór og Grindavík mættust í fyrsta leik sínum í 8-liða úrslitum Domino's-deildar karla í körfubolta í kvöld í Grindavík. Heimamenn voru sterkari í kvöld og sigruðu 99-85.

Leikurinn var jafn fyrstu mínúturnar en Grindavík lokaði 1. leikhluta á góðu áhlaupi og komst í 28-15. Þór náði að minnka muninn í þrjú stig, 36-33, í 2. leikhluta en Grindavík skoraði fimm síðustu stigin í fyrri hálfleik og leiddi 43-35 í leikhléinu.

Heimamenn höfðu áfram frumkvæðið í 3. leikhluta en staðan að honum loknum var 67-61. Grindavík skoraði fyrstu fimm stigin í síðasta fjórðungnum og leiddi svo 83-68 um miðjan 4. leikhluta. Þeir héldu svo Þórsurum í þægilegri fjarlægð það sem eftir lifði leiks.

Staðan er því 1-0 í einvíginu en liðið sem fyrr vinnur þrjá leiki kemst í 4-liða úrslitin.

Næsti leikur liðanna er í Þorlákshöfn á sunnudagskvöld kl. 19:15.

Tölfræði Þórs: Maciej Baginski 27 stig, Tobin Carberry 26 stig/9 fráköst/6 stoðsendingar, Ragnar Örn Bragason 12 stig, Ólafur Helgi Jónsson 6 stig/5 fráköst, Halldór Garðar Hermannsson 5 stig, Emil Karel Einarsson 5 stig/4 fráköst, Grétar Ingi Erlendsson 4 stig.