Grindavík tekur forystuna

Þór og Grindavík mættust í kvöld í fyrstu viðureigninni í 8-liða úrslitum Domino's-deildar karla í körfubolta. Grindvíkingar höfðu að lokum tíu stiga sigur, 92-82.

Leikurinn var jafn lengst af, Þórsarar leiddu 22-25 eftir 1. leikhluta en Grindavík hafði betur í hálfleik, 44-43. Jafnræðið hélt áfram í 3. leikhluta en í upphafi þess fjórða náðu Grindvíkingar forskoti sem varð mest sautján stig. Þórsarar náðu að minnka muninn niður í átta stig undir lokin, en nær komust þeir ekki.

Mike Cook Jr. var stigahæstur Þórsara með 25 stig, Ragnar Nathanaelsson skoraði 19 og tók 13 fráköst, Tómas Heiðar Tómasson skoraði 17, Nemanja Sovic 10, Baldur Þór Ragnarsson 8 og Emil Karel Einarsson 3.

Leikur tvö verður í Þorlákshöfn á sunnudaginn.