Grindavík stakk Þór af í lokin

Grindvíkingar náðu forystunni í úrslitaeinvíginu við Þór í Domino's-deild karla í körfubolta í kvöld þegar liðin mættust í Grindavík. Grindvíkingar sigruðu 87-67 og leiða 2-1 í einvíginu.

Þórsarar höfðu undirtökin í 1. leikhluta og leiddu að honum loknum, 12-16. Varnirnar voru í hávegum hafðar og skotnýtingin lítil í fyrri hálfleik en staðan í leikhléi var jöfn, 36-36.

Grindvíkingar náðu tíu stiga forskoti í 3. leikhluta en Þórsarar voru orðnir þreytulegir og spiluðu ekki eins og lið í síðasta fjórðungnum, þannig að sigur heimamanna var ekki í hættu.

Mike Cook Jr. var stigahæstur Þórsara með 15 stig, Baldur Þór Ragnarsson skoraði 13, Ragnar Nathanaelsson og Nemanja Sovic 12, Tómas Heiðar Tómasson 10, Jón Jökull Þráinsson 3 og Emil Karel Einarsson 2. Ragnar var frákastahæstur með 15 fráköst.

Fjórði leikur liðanna verður í Þorlákshöfn á sunnudagskvöldið og þurfa Þórsarar á sigri að halda þar, ætli þeir sér ekki í snemmbúið sumarfrí.

Fyrri greinAldís bæjarstjóri í baráttusætinu
Næsta greinIngþór og Ísak með mörkin í tapleik