Grímsnesingarnir kláruðu með stæl

Grímsnesingarnir Jón Örn Ingileifsson og Sigurjón Þór Þrastarson luku keppni í 12. sæti í Alþjóðarallinu sem lauk í Reykjavík í dag.

Jón Örn og Sigurjón voru í góðri stöðu eftir fyrsta keppnisdag á fimmtudaginn, 52 sekúndum frá fyrsta bíl, en í lok dags fengu á sig sex mínútna refsingu fyrir að mæta of seint til keppni og því féllu þeir niður töfluna.

Þeir óku ágætlega í gærmorgun og tóku m.a. besta tíma á einni sérleið en kúplingin í Lancernum var að stríða þeim og eftir síðustu ferð um Dómadal þurftu þeir að hætta keppni þegar þrjár sérleiðir voru eftir þann daginn.

Samkvæmt reglum rallsins gátu þeir hafið keppni aftur í morgun með tuttugu mínútna refsitíma á bakinu fyrir að klára ekki í gær.

Í dag voru þeir áfram meðal fremstu bíla á hverri sérleið og unnu fjóra sérleiðasigra þar sem þeir náðu m.a. besta tíma á þremur síðustu sérleiðunum.

Fleiri Sunnlendingar tóku þátt í keppninni, Tungnamennirnir Þorsteinn Páll og Ragnar Sverrissynir sigruðu í non-turbo flokknum á Subaru Impreza en Jón Bjarni Hrólfsson og Selfyssingurinn Halldór Gunnar Jónsson féllu úr leik á fyrsta degi eftir vélarbilun.

Alls lagði 21 bíll af stað í keppnina en fjórtán skiluðu sér í endamark.