„Gríðarlega sætur sigur“

Selfoss náði að landa ævintýralegum eins marks sigri á Val í kvöld í Olísdeild karla í handbolta, 25-26 að Hlíðarenda.

„Þetta er gríðarlega sæt­ur sig­ur. Þetta var hörku­leik­ur all­an tím­ann. Bæði lið spiluðu vel, bæði í vörn og sókn og þetta var frá­bær skemmt­un,“ sagði Elv­ar Örn Jóns­son, í samtali við mbl.is eftir leik. 

Valur fékk dauðafæri í lokin
Jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleik en Selfyssingar leiddu 11-12 í leikhléi. Slæm byrjun Selfyssinga í seinni hálfleik gaf Valsmönnum forskot og héldu þeir frumkvæðinu langt fram eftir leiknum.

Selfoss náði að jafna 25-25 á lokamínútunni og Nökkvi Dan Elliðason kom Selfyssingum yfir, 25-26, þegar 20 sekúndur voru eftir. Valsmenn fengu dauðafæri í síðustu sókn leiksins en boltinn fór í stöngina og Selfyssingar fögnuðu gríðarlega mikilvægum sigri.

Elvar markahæstur – Selfoss upp í 2. sætið
Elvar Örn Jónsson var markahæstur Selfyssinga með 7 mörk, Alexander Egan og Atli Ævar Ingólfsson skoruðu 5, Haukur Þrastarson 3 og þeir Hergeir Grímsson, Nökkvi Dan Elliðason og Einar Sverrisson skoruðu allir 2 mörk.

Sölvi Ólafsson varði 8 skot í marki Selfoss og Pawel Kiepulski 4.

Selfoss fór upp í 2. sæti deildarinnar með sigrinum. Haukar sitja í toppsætinu með 25 stig, Selfoss hefur 24 eins og Valur og FH.

Fyrri greinTalið að bíll hafi farið í Ölfusá
Næsta grein„Mótmæla harðlega að stjórnvöld gangi erinda fjársterkra stórkaupmanna“