Gríðarlega mikilvæg stig til Selfoss

Úr leik Selfoss og Hauka í sumar. Tokic og Þorsteinn Aron á tánum í vítateignum. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfoss vann gríðarlega mikilvægan 2-1 sigur á Haukum í toppbaráttu 2. deildar karla í knattspyrnu á Selfossvelli í kvöld.

Heimamenn byrjuðu leikinn ekki vel og Haukar komust yfir á 12. mínútu leiksins með draumaskoti Nikola Djuric en hann hamraði boltann í netið af 35 metra færi.

Eftir markið hresstust Selfyssingar mikið og má segja að þeir hafi verið sterkari aðilinn það sem eftir lifði leiks. Þeim var hins vegar fyrirmunað að skora og fengu mörg dauðafæri. Haukar björguðu á línu frá Þorsteini Aroni Antonssyni á 18. mínútu og Hrvoje Tokic og Valdimar Jóhannsson skutu báðir upp í þverslána úr markteignum í seinni hálfleiknum.

Mark Selfoss lá í loftinu og ísinn var brotinn á 76. mínútu þegar Selfoss fékk eina af fjölmörgum hornspyrnum sínum. Þór Llorens tók spyrnuna og Tokic náði að koma boltanum í netið þar sem hann lúrði á fjærstöng. 

Selfoss hélt áfram að sækja og þeir uppskáru mjúka vítaspyrnu á 86. mínútu þegar Valdimar Jóhannsson féll í teignum. Valdimar hafði komið inná sem varamaður í seinni hálfleik og var mjög sprækur í leiknum. Tokic fór á vítapunktinn og skoraði af stöku öruggi.

Selfyssingar hefðu getað bætt við fleiri mörkum á lokakaflanum en létu 2-1 sigur duga. Selfoss jafnaði Kórdrengi að stigum í toppsæti deildarinnar, bæði lið hafa 28 stig en Kórdrengir hafa betra markahlutfall.

Fyrri greinMikilvægt að ganga á stígum við Rauðafoss
Næsta greinHamar tapaði á Hornafirði