Mílan er úr leik í bikarkeppni karla í handbolta eftir 22-31 tap gegn Þrótti R. á heimavelli í 16-liða úrslitum í Hleðsluhöllinni á Selfossi í kvöld.
„Þetta var kaflaskipt, við vorum frískir í byrjun eins og gerist oft hjá okkur en undir lok fyrri hálfleiks og í byrjun seinni áttum við erfitt og réðum illa við örvhentu skyttuna þeirra sem var að skora mikið. Í lok leiks fengum við aftur flæði á boltann og það skilaði sér í þessum 22 mörkum. En eins og ég segi, fyrstu tíu mínútur leiksins voru frábærar og sýna það sem við erum að byggja á og höfum verið að æfa. Það vantaði herslumuninn – þetta var ekki okkar dagur,“ sagði Þórir Ólafsson, þjálfari Mílunnar, í samtali við sunnlenska.is eftir leik.
„Bikardraumurinn er úti núna og það eru gríðarleg vonbrigði. Við stefndum á Final Four, enda miklir peningar í húfi fyrir liðið og framtíðina.“
En ertu þá að meina að framtíð Mílunnar sé í óvissu?
„Ég veit það ekki, það voru aðeins leiðindi á bekknum og greinilega titringur í hópnum eftir að við vorum slegnir út hérna í kvöld. En ég vona að við náum að hrista hópinn saman aftur og að Mílan mæti tvíefld í bikarkeppnina að ári,“ sagði Þórir að lokum.
Frábær upphafskafli dugði skammt
Mílan byrjaði frábærlega í leiknum og náði fljótlega tveggja marka forskoti. Staðan var 5-4 þegar tíu mínútur voru liðnar en þegar fyrri hálfleikur var hálfnaður fór að halla undan fæti. Staðan í leikhléi var 11-16.
Í seinni hálfleik varð fljótlega ljóst hvert stefndi. Óstöðugur sóknarleikur Mílunnar virtist ætla að gera bikarævintýrið að engu og Þróttur var kominn með tíu marka forskot, 16-26, þegar tíu mínútur voru eftir. Lokakaflinn var hins vegar ágætur hjá Mílunni og nokkur glæsileg mörk litu dagsins ljós, en að lokum skildu níu mörk liðin að, 22-31.
Ástgeir tók Þróttara á taugum
Aron Tjörvi Gunnlaugsson var markahæstur hjá Mílunni með 8 mörk, Trausti Eiríksson skoraði 4/3 mörk, Rúnar Hjálmarsson 4 en Rúnar var geysisterkur í vörninni með 5 brotin fríköst. Eyþór Jónsson og Einar Sindri Ólafsson skoruðu báðir 2 mörk og þeir Viðar Ingólfsson og Ómar Vignir Helgason skoruðu sitt markið hvor.
Ástgeir Sigmarsson er einn heitasti markvörður Selfossbæjar um þessar mundir en hann varði 17/4 skot í kvöld og var með 36% markvörslu. Ástgeir tók Þróttara algjörlega á taugum á vítalínunni en Þróttur fékk níu víti í leiknum og skoraði aðeins úr þremur þeirra.