Gríðarlega mikilvæg stig í sarpinn

Kvennalið Selfoss vann í kvöld sinn fyrsta útisigur í Pepsi-deildinni í knattspyrnu þegar liðið lagði FH að velli í Kaplakrika, 1-3.

Það blés reyndar ekki byrlega fyrir Selfoss í upphafi leiks því strax á 12. mínútu komust FH-ingar yfir. Selfyssingar sóttu í sig veðrið eftir það og á 26. mínútu jafnaði Selfoss metin með sjálfsmarki Guðrúnar Frímannsdóttur og Eva Lind Elíasdóttir kom svo Selfoss í 1-2 á 38. mínútu og þannig stóðu leikar í hálfleik.

Seinni hálfleikurinn var í járnum framan af en Selfossliðið barðist vel í leiknum og hafði undirtökin þegar leið á leikinn. Á á 90. mínútu gulltryggði Katrín Rúnarsdóttir sigur Selfoss með þriðja marki liðsins en Katrín hafði komið inná sem varamaður sjö mínútum áður.

Þetta er fyrsti sigur Selfoss á útivelli í deildinni í sumar en liðið hefur nú 11 stig eins og Fylkir og Afturelding. Þrátt fyrir að hafa skorað mest þessara liða eru Selfyssingar hins vegar með lang lakasta markahlutfallið en liðið hefur fengið á sig 51 mark í sumar og markahlutfallið er -30.

Selfyssingar eru því áfram í fallsæti, 9. sætinu, á eftir Fylki og Aftureldingu en Afturelding lagði Fylki einmitt í kvöld, 1-2. Selfoss á eftir að mæta báðum þessum liðum í ágústmánuði og er ljóst að framundan er æsispennandi botnbarátta í deildinni.

Fyrri greinLíf og fjör í Ljósafossstöð um Verslunarmannahelgina
Næsta greinOlga Lísa komin með lyklavöldin