Gríðarlega mikilvæg stig í húsi

Hamar vann gríðarlega mikilvægan sigur á Breiðabliki í 1. deild karla í körfubolta í kvöld. Lokatölur voru 98-95 en liðin eru í harðri baráttu um sæti í úrslitakeppninni.

Fyrri hálfleikur var hnífjafn en gestirnir leiddu með tveimur stigum í hálfleik, 45-47.

Hvergerðingar mættu hins vegar brjálaðir inn í seinni hálfleikinn, Sigurður Hafþórsson skoraði átta fyrstu stig Hamars í 3. leikhluta en Hamar tók 19-2 áhlaup snemma í leikhlutanum. Staðan var þá orðin 70-53 en staðan að loknum 3. leikhluta var 78-63.

Þrátt fyrir öruggt forskot í upphafi tókst Hvergerðingum að gera síðasta fjórðunginn spennandi. Blikar söxuðu jafnt og þétt á forskot Hamars og þegar slétt mínúta var eftir jöfnuðu þeir, 93-93.

Bjarni Lárusson setti niður tvö víti í kjölfarið og kom Hamri í 95-93 en Blikar jöfnuðu þegar tíu sekúndur voru eftir af leiknum. Danero Thomas var hins vegar ekki spenntur fyrir því að fara í framlengingu og tók sig því til og flengdi niður þriggja stiga skoti á lokasekúndunni og tryggði Hamri þar með sigurinn.

Danero Thomas var besti maður vallarins með 28 stig og 18 fráköst, Sigurður Orri Hafþórsson skoraði 15 stig, Halldór Gunnar Jónsson 14, Bjarni Rúnar Lárusson og Snorri Þorvaldsson 11, Bragi Bjarnason 9, Aron Freyr Eyjólfsson 8 og Bjartmar Halldórsson 2.

Eftir leikinn í kvöld eru bæði liðin með 14 stig, eins og FSu sem á leik til góða. Þessi þrjú lið eru að berjast um fjórða sætið í úrslitakeppni deildarinnar en Breiðablik hefur betur í innbyrðisleikjum gegn Hamri eftir að hafa unnið fyrri leikinn með fimmtán stiga mun.