Gríðarlega góður sigur í Víkinni

Selfyssingar unnu mikilvægan sigur á Víkingum í 1. deild karla í handknattleik í kvöld þegar liðin mættust í Víkinni. Lokatölur voru 23-25 og er Selfoss nú í 2. sæti deildarinnar.

Leikurinn var í járnum á upphafsmínútunum en Selfyssingar spiluðu góða vörn og lögðu grunninn að sigrinum með henni. Jafnt var á með liðunum upp í 5-5 en þá skoraði Víkingur þrjú mörk í röð og staðan var svo 10-9 í hálfleik, heimamönnum í vil.

Selfyssingar voru sterkari í síðari hálfleik, náðu mest fjögurra marka forskoti og fengu nokkur tækifæri til að auka muninn í fimm mörk. Víkingar minnkuðu muninn minnst niður í tvö mörk en Selfyssingar höfðu leikinn í öruggum höndum á lokamínútunum og sigurinn var aldrei í hættu.

Fyrirliðinn Hörður Gunnar Bjarnarson var markahæstur Selfyssinga með 9 mörk. Atli Kristinsson skoraði 8, Einar Pétur Pétursson 4, Matthías Örn Halldórsson 3 og Einar Sverrisson 1.

Helgi Hlynsson varði 9 skot og var með 41% markvörslu og Sverrir Andrésson varði 3 skot og var með 23% markvörslu.

Þetta var fyrsta tap Víkinga í vetur en þeir höfðu sigrað í fyrstu þremur leikjum tímabilsins. Selfoss og Víkingur hafa nú 6 stig en Stjarnan er á toppnum með 7 stig.