Grétar valinn í úrvalsliðið

Grétar Ingi Erlendsson, miðherji Þórs í Þorlákshöfn, var valinn í fimm manna úrvalslið seinni hluta Domino’s-deildar karla í körfubolta.

Verðlaunin voru afhent í dag en auk Grétars eru í liðinu þeir Pavel Ermolinskij, KR, Emil Barja, Haukum, Stefan Bonneau, Njarðvík og Darrel Lewis, Tindastól.

„Þetta er búið að vera upp og niður hjá okkur í vetur. Við erum búnir að sýna ansi skemmtilega takta á köflum en höfum svo verið að missa fæturna gegn liðum sem minna er ætlast til af,” sagði Grétar í samtali við sunnlenska.is í dag.

Grétar hefur staðið sig prýðilega í síðari hluta mótsins en Þórsarar luku leik í deildarkeppninni í 7. sæti og mæta Tindastóli í átta liða úrslitum úrslitakeppninnar. Fyrsti leikur liðanna verður á Sauðárkróki næstkomandi föstudag og leikur tvö í Þorlákshöfn á mánudag. Liðið sem fyrr vinnur þrjá leiki kemst í undanúrslitin.

„Þetta verður erfitt en vonandi skemmtilegt. Þetta er bara ný keppni og stuðningurinn skiptir miklu máli,“ sagði Grétar ennfremur í myndbandinu hér til neðan, en hinn eldspræki Gestur frá Hæli spjallaði við hann.

Tindastóll(2) – Þór Þ.(7)
Leikur 1 Föstudagur 20. mars kl. 19.15 Tindastóll-Þór Þ.
Leikur2 Mánudagur 23. mars kl. 19.15 Þór Þ.-Tindastóll
Leikur 3 Föstudagur 27. mars kl. 19.15 Tindastóll-Þór Þ.
Leikur 4 Mánudagur 30. mars kl. 19.15 Þór Þ.-Tindastóll ef þarf
Leikur 5 Fimmtudagur 2. apríl kl. 19.15 Tindastóll-Þór Þ. ef þarf

Fyrri greinRokið sækir í sig veðrið
Næsta greinGestirnir reyndust sterkari