Grétar mættur aftur á parketið

Þórsarar unnu öruggan sigur á botnliði Snæfells í Domino's-deild karla í körfubolta í gærkvöldi. Lokatölur í Icelandic Glacial höllinni urðu 110-85.

Þór náði mest þrettán stiga forskoti í 1. leikhluta en staðan í hálfleik var 54-42. Þórsarar gerðu svo endanlega út um leikinn í 3. leikhluta en staðan að honum loknum var 87-61. Síðasti fjórðungurinn var jafn og lokatölur 110-85.

Allir leikmenn Þórsara komust á blað í leiknum og þeirra á meðal var Grétar Ingi Erlendsson sem lék sinn fyrsta leik í vetur eftir meiðsli.

Tobin Carberry skoraði 21 stig fyrir Þór, Ragnar Bragason 17, Emil Einarsson 14, Ólafur Jónsson 10 og Halldór Hermannsson 9, Davíð Ágústsson og Grétar Ingi Erlendsson skoruðu báðir 8 stig, Maciej Baginski 7, Erlendur Stefánsson og Magnús Þórðason 5, Þorsteinn Már Ragnarsson 4 og Benjamín Benjamínsson 2.

Þór er í 4. sæti deildarinnar með 6 stig, tveimur stigum á eftir toppliði KR.