Greiða fyrir hvern sigurleik

Landsbankinn á Selfossi hefur stofnað áheitasjóð fyrir stuðningsfélagið Einstök börn og mun greiða ákveðna upphæð í þann sjóð fyrir hvern sigurleik hjá meistaraflokksliðum Selfoss í handbolta í vetur.

Þá mun merki Einstakra barna vera framan á keppnisbúningum liðanna í vetur eins og verið hefur.

Þetta var samþykkt þegar Landsbankinn og Handknattleiksdeild Umf. Selfoss endurnýjuðu samstarfssamning sinn fyrir stuttu. Landsbankinn mun verða aðalstyrktaraðili handboltans á Selfossi næstu þrjú árin.

Í tilkynningu frá bankanum segir að samstarf þessara aðila hafi verið gott um árabil og að markmið bankans sé að styrkja íþrótta- og forvarnastarf á svæðinu.

Landsbankinn afsalar sér merkingum á búningum liðsins eins og stefna hans segir til um. Þess vegna verður merki Einstakra barna áfram á búningum Selfoss, en það er stuðningsfélag barna og ungmenna með sjaldgæfa og jafnvel ógreinda sjúkdóma eða skerðingar.

Fyrri greinMiðar gefnir á Selfoss-ÍA
Næsta greinFransiska, Íris og Karen semja við Selfoss