Grátlegt tap í Suðurlandsslagnum

Sif Atladóttir. sunnlenska.is/Dýrleif Nanna Guðmundsdóttir

Kvennalið Selfoss tapaði 0-2 gegn ÍBV á heimavelli í Bestu deildinni í knattspyrnu í kvöld. Bæði mörk ÍBV voru skoruð í fyrri hálfleik.

Selfossliðið leit mjög vel út í upphafi leiks og ógnaði marki ÍBV talsvert. Mörkin létu þó á sér standa en Guðný Geirsdóttir, markvörður ÍBV, reyndist fyrrum félögum sínum erfið í kvöld.

Á 36. mínútu komst ÍBV yfir, þvert á gang leiksins, með marki Olgu Sevcovu og þremur mínútum síðar fengu Eyjakonur vítaspyrnu á silfurfati leiksins, eftir að Sif Atladóttir hafði fengið boltann í höndina af stuttu færi, og úr vítaspyrnunni skoraði Þóra Björg Stefánsdóttir.

Staðan var 2-0 í hálfleik og Selfoss reyndi allt hvað af tók að minnka muninn í seinni hálfleiknum. Liðið fékk fín færi og margar álitlegar stöður en inn vildi boltinn alls ekki.

Þrátt fyrir sigurinn er ÍBV áfram í fallsæti með 10 stig en Selfyssingar eru einar á botninum með 7 stig.

Fyrri greinUngt fólk frá Árborg heimsótti Finnland
Næsta greinSuðrakeppendur fengu magnaðar móttökur