Grátlegt tap gegn toppliðinu

Berglind Karen Ingvarsdóttir skoraði 9 stig og tók 5 fráköst. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Hamar-Þór tapaði naumlega fyrir toppliði ÍR í 1. deild kvenna í körfubolta í kvöld, þegar liðin mættust í Hveragerði, 57-62.

Leikurinn var jafn framan af en þegar sjö mínútur voru liðnar gerði ÍR 9-2 áhlaup og breytti stöðunni í 10-16. Hamar-Þór kom til baka í upphafi 2. leikhluta og náði forystunni en ÍR fór þó með tveggja stiga forskot inn í hálfleikinn, 27-29.

Þær sunnlensku fóru vel af stað í seinni hálfleiknum og í upphafi 4. leikhluta var staðan orðin 52-43. ÍR gafst ekki upp og þegar tæpar tvær mínútur voru eftir jöfnuðu þær metin, 54-54. Lokakaflinn var æsispennandi en þá hikstaði Hamar-Þór í sókninni og ÍR skoraði síðustu sex stigin í leiknum.

Hamar-Þór er áfram í 9. sæti deildarinnar með 6 stig en ÍR er á toppnum með 14 stig.

Tölfræði Hamars-Þórs: Astaja Tyghter 26/23 fráköst, Berglind Karen Ingvarsdóttir 9/5 fráköst, Julia Demirer 9/8 fráköst, Helga María Janusdóttir 7, Valdís Una Guðmannsdóttir 4, Hildur Björk Gunnsteinsdóttir 2.

Fyrri greinFimm bíla árekstur austan við Vík
Næsta greinSelfoss missti niður gott forskot